fimmtudagur, nóvember 30

Fjallageitur

Í gær hóf uppátækjasöm dóttir mín að banna mér að horfa á fréttir í sjónvarpinu. Til að framfylgja þessu banni gerði hún fjarstýringar heimilisins upptækar og hóf að skipta um stöðvar með miklum hraða og fannst henni sú iðja afskjaplega skemmtileg. Svo skyndilega rambaði hún á Skjá1 þar sem var einhver ömurlegur spjallþáttur með greifahommanum og einhverri kellingu, og ákvað stúlkan þá að refsa mér með því að neyða mig til að horfa á þetta þar sem hún hljópst á brott með fjarstýringuna. Ok, fine, ég sat þarna og hugsaði mér til hreyfings þegar þátturinn verður skyndielga ögn meira spennandi; inn þrammaði her af furðulegum gaurum sem allir voru í gráum lopapeysum og kölluðu þeir sig Fjallageitur. Reyndar var einn í hópnum ekki í lopapeysu og reyndi eftir mesta megni að fela sig bak við þá sem fyrir framan hann stóðu, sem gerði það að verkum að ég tók sérstaklega eftir honum og sá mér til mikillar furðu og skemmtunar að þarna var mættur sjálfur Fjallateitur. Geiturnar jörmuðu vel og lengi og var gaman að sjá Geit kyrja blússlagara og stappandi niður fótunum íbygginn á svip.

Fjallageiturnar eru farnar að vekja mikla athygli og hefur umboðsmaðurinn frægi, Einar Barðason sem meðal annars kom Melódískt Baulandi Beljunni Huppu til heimsfrægðar í Færeyjum, tekið Fjallageiturnar að sér og munu þeir nú performa í öllum helstu byggðakjörnum landsins með undir 100 íbúa á næstu vikum.

Merkilegt þótti mér þegar forsprakki hópsins, sem yfirleitt er þekktur undir dulnefninu "The Wedding Singer" kynnti flokkinn og sagði þetta sönghóp sem saman stæði af verkamönnum og bændum, sjóurum og seiðkörlum. Ég reyndar þóttist sjá einn lögfræðing þeirra á milli, en ekki var minnst á það, enda ekki vel séð að menntaelítan sé að blanda sér í slíka hópa.

Engin ummæli: