Þá er maður búinn að uppfylla skildur hins vinnandi manns. Í gær sat ég í rigningunni í tvo tíma að bíða eftir að æðri máttarvöldum þóknaðist að hefja skemmtidagskrá annars dags Ljósanætur.
Þegar við mættum kl. 13.30 í Reykjanesbæ í búningum tilbúin að fara á svið hálftíma seinna komumst við að því að hljóðmaðurinn væri farinn á spítala af því hann hefði fengið sviðið í hausinn! Það fauk sem sagt á hann hátalarastæða eða eitthvað. Rokið var svo mikið að það sem ég taldi úr fjarlægð að væru gasblöðrur voru í raun börn í mislitum pollagöllum sem voru fest í spotta sem foreldrar þeirra héldu dauðahaldi í!
Hljóðmaðurinn skráði sig loks út af spítalanum eftir að búið var að sauma saman á honum ennið og hann tekið vænan skammt af verkalyfjum, svo vænan að hann var orðinn glaseygur og slefaði svolítið þegar hann talaði, en hvað um það, maður er öllu vanur. Þegar hann var svo til í að hefja dagskrána þá flæddi hins vegar inn á sviðið og rafmagnið fór af öllum mögnurum!
Það ver svo um það bil tveimur tímum eftir að við mættum á svæðið sem dagskráin hófst og merkilegt hvað hátíðargestir höfðu verið þolinmóðir að bíða eftir þessu enda slatti af fólki sem var á svæðinu þegar við stigum á svið. ÉG hef reyndar óljósan grun um að það hafi verið vegna þess að allir voru búnir að hæla sig fasta við flötina og þorðu sig hvergi að hræra af ótta við að fjúka út í hafsauga...
Það sem þetta kennir okkur er að það er kannski full mikil bjartsýni að halda útihátíð á Íslandi í september!
Í dag var þess vegna hafst við undir styrku þaki Borgarleikhússins þar sem ég söng fyrir, spjallaði við og steikti vöfflur ofan í gesti og gangandi.
Sem sagt þessi venjulega vinnuvika að baki og nú getur maður slappað af fram á næstu helgi!
sunnudagur, september 2
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
jakkafataklæddir FUGO menn framkvæmda og fjármálastjórar, verðbréfamiðlarar sem og diplómata armur FUGO bandaríski sem íslenski situr fjötraður við skrifborðið og horfir opinminntur á þessa færslu um vinnuvikuna herðir bindið og fellir lítið tár.
Skrifa ummæli