Félagi Gautur gerði tímann að umfjöllunarefni sínu í bloggi gærdagsins. Lesa má færslu hans hér. Þarna veltir hann fyrir sér hugmyndum okkar vestrænna manna um tímann og hvernig hann líður áfram án þess að við fáum neitt að því gert. Ég held að einmitt þessi hugmynd okkar um tímann geri það að verkum að við erum alltaf of sein! Tíminn þýtur áfram eins og beljandi stórfljót og við erum bara að reyna að halda okkur á floti. Sífellt á leiðinni eitthvert, í endalausu kapphlaupi við tímann.
"Er eitthvað í rauninni liðið og ókomið?....."
Þetta segir Gautur jafnframt í færslu sinni og þarna hittir hann á mjög athyglisverða hugmynd. Hann segir, sem vissulega er rétt, að tíminn sé einfaldlega kenning. Vesturlandabúar hafa þá kenningu að tíminn sé lóðréttur ás sem líður áfram. Atburðum er raðað á þennan ás, þeir líða framhjá og koma þá aldrei aftur og annað hvort grípa menn tækifærið eða missa af því.
Heimspekingurinn Gunnar Hersveinn veltir tímanum einnig fyrir sér í bók sinni Gæfuspor. Þar talar hann um önnur samfélög manna og kenningar þeirra um tímann. Í ákveðnum samfélögum í Afríku bendir hann á að kenningin um tímann sé allt önnur. Þar líta menn á tímann sem hring. Þar líður tíminn ekki, þar kemur hann. Þess vegna er óarfi að vera á stöðugum handahlaupum á eftir tímanum, kenningu sem vel að merkja maðurinn sjálfur bjó til í því sjónarmiði að auðvelda sér lífið en hefur nú tekið völdin af skapara sínum. Ef þú missir af strætó þá kemur einfaldlega annar. Þannig kemur tíminn í Afríku og ekki nóg með það heldur kemur hann alltaf aftur og aftur. Svipað og á enginu sem Gautur talar um.
Það væri skiljanlega erfitt fyrir einn mann að reyna að lifa eftir þessari kenningu í umhverfi sem er gegnsýrt af ósamrýmanlegri kenningu, en við megum öll við því að slaka aðeins á. Tíminn er peningar sagði einhver en hvíldin er líka peningar, án hvíldar gætum við ekki gert handtak. Við myndum einfaldlega veslast upp og deyja. Stundum liggur manni á, það er skiljanlegt en þess í milli er nauðsynlegt að staldra við, horfa í kringum sig og finna lyktina af nýjum degi. Því ef við ætlum ekki að njóta þess að vera til, til hvers er þá lífið?
fimmtudagur, september 27
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
ÞAð sem mér finnst akkurat svo áhugavert við pælingar um tímann er það að menn líta á hann sem eitthvað nátturulögmál, sem merkilegt nokk hann er ekki. Þetta er bara kefi sem farið er eftir og allir eru heilaþvegnir af ( sem er fínt meina það ekki þannig) Það er bara alltaf áhugavert velta fyrir sér svona hlutum sem allir taka for granted... og fæstir eru að spökulegra neitt í....
ok, ég er ekki alveg sammála félaga Páfagauti hérna. Tíminn er vissulega náttúrulögmál, hins vegar er það mælitæki og þær mælieiningar sem við kjósum að nota til að fylgjast með tímanum eitthvað kerfi sem við smíðuðum sjálf.
Skrifa ummæli