þriðjudagur, september 19

Lesbískar goth vampírur...

...og fleira skemmtilegt sem finna má á Reyðarfirði.

Já góðir hálsar. Ég var sem sagt staddur á Reyðarfirði alla síðustu helgi. Ég var þarna ásamt góðu fólki, Þeim Snorra og Bríeti Sunnu sem gerðu garðinn frægan í Idolinu og Vigni (kenndum við Írafár). Guði sé lof fyrir það því ég þekki engan á Reyðarfirði, fyrir utan nýja bæjarstjórann hana Helgu Jóndóttur.

Þar sem við vorum þarna á þvælingi um Reyðarfjörð lentum við í miklum ævintýrum. Þarna var ákaflega hávaðasöm kona sem kunni lítið annað en að öskra "O-KOMASO!" (útleggst: og koma svo). Þetta æpti hún milli þess sem hún svekkti sig á því að við værum hvorki áberandi drukkin né dansandi uppi á borðum. Einhverstaðar í látunum þá límdi sig líka á okkur maður sem virtist hafa ákveðið að hann væri nýji, besti vinur Vigga (hann var ekki alveg sammála, en fékk litlu um það ráðið). Svo hittum við fyrir eina piercuðustu konu Íslands, nokkra pólska verkamenn og fleiri góða.

Á leið okkar up á hótel til að losna undan þessu og gera það sem Reykvíkingar gera best í ókunnum og svolítið ógnvekjandi aðstæðum (já, spila á gítar og syngja) þá hittum við tvær lesbískar vampírur. Þær sögðust reyndar vera í opnu og sveigjanlegu sambandi en sem betur fer fyrir okkur þá voru þær hungraðar í pizzu en ekki popparakjöt, svo við sluppum.

Eins og allir sjá þá er Reyðarfjörður spennandi bæjarfélag (tæknilega séð er það náttúrulega bara lítill hluti af enn stærra (og þá væntanlega enn meira spennandi bæjarfélagi sem heitir Fjarðarbyggð)) og ég hvet fólk til að kíkja. You won't regrett it!

Engin ummæli: