Hvaða snillingi ætli hafi dottið í hug að það væri góð hugmynd að klæða sig upp í marglit, alltof stór og raunverulega fáránleg föt, mála á sér andlitið og lita hárið á sér rautt, fara í skó sem væru og stórir á sjálfan Jóhann Svarfdæling og toppa svo múnderinguna með rauðu og kringlóttu nefi, sem hlýtur náttúrulega að vera hámark ónáttúrunnar, ég meina, það er ekkert fyrirbæri í dýraríkinu með viðlíka fáránlegt nef í andlitinu!
Þetta gerði maðurinn ekki bara svona til að hafa eitthvað að dunda sér, ónei! Og heldur ekki bara til að fara út í búð (þó svo maður fái óneitanlega mjög mikla athygli í svona múnderingu á förnum vegi!). Nei, þessi snillingur ákvað að það væri góð hugmynd að dubba sig svona upp til þess að hlaupa blaðskellandi og með tilheyrandi látum í lokað herbergi fullt af börnum sem eru í bestafalli með alvarlegan athyglisbresta og eru nógu ofbeldisfull fyrir!
Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá hvað gerist þegar slíkur óskapnaður ræðst inn í verndað umhverfi barns sem er enn ámörkum þess að vera óviti og getur enga björg sér veitt. Eins og það sé ekki nóg heldur hlæja mamma og pabbi bara að fávitanum og verða voða hissa þegar krakka-anginn bregst ókvæða við!
Þegar svo ekkert annað gengur til að friða krakkahópinn þá dregur snillingurinn okkar fram úr ermi sinni nóg af sælgæti til að æra meðalstórann afríkufíl og fer að dæla í krakkana! Svo klárar hann verkið með því að trylla börnin gjörsamlega með hamagangi og vitleysislátum sem myndu nægja til að koma fullvöxnum karlmanni í fangelsi í flestum öðrum heimshlutum. Þegar hér er komið sögu þá skliur snillingurinn okkar við samkvæmið og eftirlætur þannig foreldrunum að fást við krakkahjörðina sem á þessum tímapunkti minnir meira á hjörð af hýenum heldur en mannsbörn. Og sagan endar ekki hér, ónei!
Þegar snillingurinn okkar kemur heim, sáttur við dagsverkið (eða öllu heldur bara verk síðasta hálftímans) þá sendir hann foreldrum krakkanna reikning upp á fleiri þúsundir króna!
Það sem ég er að reyna að segja með þessari sögu er: Næst þegar ykkur vantar trúð í barnaskemmtun (t.d. afmæli eða þess háttar) þá hikið ekki vði að hringja í mig, því ég hef ansi mikla reynslu af slíku (og þó nokkuð gaman líka; já og tek ekki nema 30.000 kall fyrir...).
laugardagur, október 29
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Er "trúður" ekki verndað starfsheiti hér á landi líkt og hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum? Ert þú með tilskilda menntun í þetta djobb?
Ég þarf nú ekki einu sinni að dressa mig upp í ofstóra skó og rautt nef til að kvalifæja sem trúður, þetta er meðfætt ánnað hvort eru menn trúðar eður ei. Óþarfi að lögvernda slíkt.
Ég hef tilskilin réttindi til að leika bæði trúð, jólasvein, eplaSvalabróðir og Pop (eins og í Snap, Crackle og Pop - þúveist, þarna Rice Crispies gaurarnir). En ég efast um að neitt af ofantöldu sé lögverndað starfsheiti amk. hér á Fróni...
Skrifa ummæli