sunnudagur, september 28

Muu
Nú steypist enn og aftur yfir þjóðina áróður mjólkurfasismans.

Nú ætla ég ekki að æsa mig yfir því að við séum að leggjast á spena blásaklausra jórturdýra, lepjandi og tottandi það sem ætlað er ungviði þeirra, en ekki fullfrískum öpum.

Ég ætla heldur ekki að fjargviðrast yfir þeirri einföldu staðreynd að mjólk er ekki góð - hún er handónýtt vatnssull; sneydd öllum tilgangi og næringargildi eftir þá hrottalegu meðferð sem hún má sæta í því barbaríska framleiðsluferli gerileyðingar og fituhryðjuverka sem hér viðgengst.

Neinei. Það sem nú fer öðru fremur í mínar fínustu er heiti herferðarinnar: nefnilegast 'muu'.

Hvað í sterkúldnum dauðanum á það að fyrirstilla, merkja og segja okkur almúganum? Jújú, þessi sjálfumglöðu auglýsingameindýr vilja meina að slíkt sé opinbert tungutak íslensku kýrinnar.

Hvað varð um MÖ?!

Voru íslensku kýrnar svo önnum kafnar við að blóðmjólka sig ofan í okkar gapandi skrælingjaskolta að nauðsynlegt reyndist að ráða einhverjar útlendar katalóníubeljur í auglýsingarnar?

Já, 'muu' er spænska beinasnarnir ykkar, 'moo' er enska,
- og á íslensku segjum við MÖÖÖÖÖÖÖÖ!

Engin ummæli: