laugardagur, mars 11

Skjótum þá alla!

Fokking helvíti! Var það sem ég hugsaði þegar ég fann hvernig maginn sökk eins og steinn og létta og fína morgunstemmningin gufaði upp eins og dögg fyrir sólu, en byrjum á byrjuninni...

Ég vatt mér inn á Kaffitár í morgun til þess að grípa með mér einn rjúkandi út í umferðina. Þar rakst ég á mann sem ég þekki og er (að því að ég hélt) í Danmörku, en situr svo alltí einu hér og sötrar kaffi. Ég spjallaði við kauða í svona 10 mínútur, rétt á meðan ég beið eftir að kaffið næði drykkjarhæfu hitastigi. Við köstuðum síðan kveðju hvor á annan. Hann rölti sér upp Bankastrætið og ég stökk út í bíl, þar sem ég hafði lagt honum í besta mögulega stæði, beint fyrir framan Sólon (og þ.a.l. Kaffitár). Þegar ég er búinn að ræsa bílinn þá gerist það. Ég rek augun í litla bláa miðann, samanbrotinn og kirfilega troðið undir vinstra þurrkublaðið.

Nú er líklega ágætt að taka það fram að ég er maður sem borga samviksusamlega í stöðumælinn í hvert sinn sem ég fer akandi niður í bæ (sem er ósjaldan) ætli ég hafi ekki eitt hátt í sexhundruð krónum í stöðumæli bara í liðinni viku! Svo kemur maður út í bíl kl. korter yfir tíu á laugardagsmorgni. Já, einmitt, 15 mínútum eftir að gjaldskylda hófst, og viti menn!

Það er á svona stundu sem maðnni gæti dottið í huga að hafa bara með sér poka í næstu bæjarferð. Og ég verð að segja það, ég tek ofan fyrir Hrafni Gunnlaugssyni og mér finnst við ættum að efna til Þjóðarátaks. "Pokum mælana" eða "Púllaða Krumma á mælinn" eða eitthvað slíkt.

Ekki batnaði gallsúra tilfinningin í maganum þegar ég er stopp á ljósunum við Lækjargötuna skömmu síðar og sé þá stöðubræður, tvo saman á morgunvappi sínu. Það vill til að það var ennþá töluvert af snjó á þaki bíilsins eftir ofankomu næturinnar svo ég renni löturhægt niður rúðunni og læði hendinni upp á þak. Rétt í þann mund sem ljósið verður grænt þá leggst ég á flautuna af öllu afli og slengi skaflinum sem ég er með í hendinni í átt til furðulostinna stöðumælavarðanna. Skaflinn lendir framan öðrum þeirra og á meðan félagi hans stumrar yfir föllnum félaga sínum þá reykspóla ég af stað niður Austurstrætið hlæjandi sigurhlátri hinna réttlátu, æpandi "Ég hætti ekki fyrr en ég er búinn að skjóta ykkur alla!"

Engin ummæli: